Viðtal við Ævar um átakið og nýja jólabók!

Frettatiminn.jpg

Lestrarátak Ævars vísindamanns hófst 1. október en þar geta grunnskólanemar tekið þátt með því að lesa bækur að eigin vali. Að átakinu loknu verða dregin út nöfn fimm þátttakenda og verða persónur í bók, sem Ævar er að skrifa, nefndar eftir þeim. Áður kemur þó út önnur bók eftir Ævar, Þín eigin þjóðsaga, þar sem lesandinn ræður ferðinni líkt og í tölvuleik.

„Ég er sjálfur gamall bókaormur og það bara má ekki gerast að dýrategundin bókaormar deyi út,“ segir Ævar Þór Benediktsson, maðurinn á bak við Ævar vísindamann. Síðastliðinn miðvikudag, 1. október, hófst Lestrarátak Ævars vísindamanns sem stendur til 1. febrúar. „Fyrstu fræin að hugmyndinni sáðu sér þegar ég var beðinn um að vera fundarstjóri á ráðstefnu um börn og lestur. Þar var öllum tíðrætt um að lestraráhugi barna, sérstaklega drengja, væri orðinn svo lítill að það væri orðið áhyggjuefni. Þetta er alvarleg þróun og ég setti höfuðið í bleyti og reyndi að finna út hvort ég gæti gert eitthvað,“ segir hann. Ævar segist hafa eilítið forskot vegna þess að krakkarnir þekkja Ævar vísindamann og hann getur þannig lagt sitt á vogarskálarnar sem góð fyrirmynd. „Þegar ég var drengur voru Gunni og Felix mínar fyrirmyndir og ég veit að ég hefði tekið þátt í öllu sem þeir hefðu átt frumkvæði að,“ segir hann.

Hugmynd frá Game of Thrones

Einn síns liðs fór Ævar að gúggla og leggjast í frekari rannsóknarvinnu um hvernig lestrarátak hefur verið útfært víða um heim, og komst að því að algengast var að börnin tóku þátt með því að lesa bækur og í lok átaks voru dregin út bókaverðlaun. „Höfundur Game of Thrones-bókanna var nýlega með góðgerðauppboð þar sem nafn hæstbjóðanda yrði notað sem persóna í næstu bók. Mér fannst sniðugt að hafa svona smá gulrót. Ég er því að byrja að skrifa nýja bók en fimm persónur bókarinnar fá ekki endanlegt nafn fyrr en í febrúar þegar við drögum úr nöfnum þeirra sem hafa tekið þátt í lestrarátakinu.“ Þegar hafa plaköt til að kynna lestrarátakið verið send í flesta grunnskóla ásamt kössum fyrir þátttökumiðana, en þá má prenta út af vefsíðunni Visindamadur.is en þar eru einnig nánari upplýsingar um lestrarátakið. Öll börn í 1. - 7. bekk geta tekið þátt. Á hvern miða þarf að skrifa nöfn þriggja bóka sem búið er að lesa, en hvert barn getur sent inn einn nýjan miða fyrir hverjar þrjár bækur. Auglýsingaplakötin prýðir fjöldi þjóðþekktra persóna sem lesa má um í bókum. „Ég nýtti alla vinargreiða til að koma þessu á koppinn. Ég verð þess vegna að skemmta frítt í barnaafmælum næsta árið til að endurgreiða vinum mínum, sem er bara gaman,“ segir Ævar og tekur fram að ef skólar vilja að hann komi og tali við nemendur um átakið sé það velkomið.

Söngelskar hafmeyjar

En þó næstu skref Ævars sé að skrifa bók í tengslum við átakið er önnur bók eftir hann að koma út í næstu viku sem ber heitið „Þín eigin þjóðsaga“. Hann segir bókina gagngert skrifaða til að auka lestraráhuga en hún er byggð upp líkt og tölvuleikur að því leyti að lesandinn tekur þátt í að skapa söguna. „Skömmu eftir að bókin hefst stendur lesandinn frammi fyrir valmöguleikum og við hvern valmöguleika er blaðsíðunúmer sem þá sýnir hvar sagan heldur áfram og í raun getur bókin endað á 50 mismunandi vegu. Það er því hægt að lesa hana aftur og aftur og fá alltaf nýja sögu. Kannski ákveður lesandinn að reyna að veiða Lagarfljótsorminn, mæta á krossgötur á nýársnótt eða hitta íslensku hafmeyjarnar sem einnig kallast margýgur. Ég segi frá því í bókinni að samkvæmt þjóðsögunum gátu margýgjar sungið öll lög, nema sálminn Te Deum. Forspilið af útgáfu Marc- Antoine Charpentier af þessum fallega sálmi er nú notað sem aðalþemalag í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision. Kannski þýðir það að þeir sem þola ekki Eurovision séu fjarskyldir hafmeyjum?“ Ævar vonast til að bókin auki áhuga barna á lestri „Og að þau læri óvart eitthvað um þjóðsögurnar í leiðinni. Þannig eru bestu barnabækurnar, þegar maður lærir eitthvað óvart.“

Þetta viðtal birtist í Fréttatímanum, föstudaginn 3. október 2014. Erla Hlynsdóttir er höfundur textans.


Nýlegt