top of page

Kjarnakonur í geimvísindum

Kjarnakonur í geimvísindum
Um helgina eru 45 ár frá því að maðurinn steig fyrst fæti á tunglið. Það eru þó fleiri sem koma að svona ferð en bara geimfararnir. Bak við hverja einustu skrúfu og hvern einasta útreikning er fjöldi fólks. Hér eru fimm merkilegar konur sem hafa á einn eða annan hátt haft áhrif á geimferðir á síðustu 100 árum. Allar eru þær frábærar fyrirmyndir og frábærir vísindamenn.

Elsie MacGill (1905 - 1980) var fyrsti kvenkyns flugvélahönnuður í heimi. Hún var kölluð ,,The Hurricane Queen" eða Fellibylsdrottningin, í höfuðið á einni af uppfinningum sínum. Elsie hannaði ótal flugför á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Hún fann líka upp nýja tækni til að þróa flugförin og auðvelda framleiðslu og fyrir þessi tækniafrek var hún margverðlaunuð. Alltaf þegar Elsie hafði hannað nýja flugvél heimtaði hún að vera sú fyrsta til að prófa hana - og það getur oft verið stórhættulegt. Þegar hún var ung fékk hún sjúkdóm sem olli því að hún gat varla gengið og því þurfti að bera hana í vélarnar sem hún prófaði. Elsie stjórnaði aldrei flugvélunum sjálf heldur sat í farþegasætinu og tók niður athugasemdir og mælingar í glósubókina sína. Hún var því greinilega ekki bara svakalega klár - heldur líka algjört hörkutól. Eftir heimstyrjöldina síðari barðist hún fyrir kvenréttindum og er ekki síður merkileg fyrir þeirra hluta sakir.

Barbara Cartland (1901 - 2000) var frumkvöðull á sviði svifflugs (aerogliding). Svifflugvél er vélarlaus flugvél sem er fest aftan í venjulega flugvél og dregin í mikla hæð. Þegar réttri hæð er náð er klippt á spottann og flugmaðurinn í vélarlausu vélinni getur svifið um eins og hann vill. Vissulega voru til útgáfur af þessari tækni áður en Barbara kom til sögunnar en þær voru oftast notaðar til skemmtunar eða til að ferðast stuttar vegalengdir. Vélin sem Barbara hannaði gat flogið yfir 300 kílómetra, sem var algjör nýlunda með flugvél af þessu tagi. Og svona til að gera þetta almennilega spennandi ákvað Barbara að fara í kapp við lest sem lagði af stað á sama tíma og svifvélin. Barbara vann. Þá má geta þess að Barbara var líka rithöfundur og skrifaði meira en 700 bækur á ævi sinni, sem flestar ef ekki allar voru rómantískar ástarsögur. Hún er í þriðja sæti yfir mest seldu rithöfunda allra tíma, rétt á eftir Shakespeare og Agöthu Christie.

Mary Sherman Morgan (1921 - 2004) var eldflauga- og efnaverkfræðingur. Hún gegndi lykilhlutverki í að koma fyrsta bandaríska gervitunglinu, Explorer 1, á loft og segja samstarfsmenn hennar að hún hafi ein og óstudd bjargað bandarísku geimferðaráætluninni. Bandarísku geimflaugarnar voru nefnilega ekki alveg að virka - þær annað hvort náðu ekki nægum hraða eða sprungu áður en þær komust á loft. Mary var sett í það að leysa þetta vandamál og fann þá upp eldsneytið Hydyne, sem kom Explorer á loft árið 1958. Verkefnin sem hún vann fyrir Bandaríkin voru hernaðarleyndarmál á hæstu stigum og það var ekki fyrr en eftir að hún var dáin að samstarfsmenn hennar stigu fram og sögðu heiminum frá hversu ótrúlega klár og mikilvæg Mary var.

Yvonne Brill (1924 - 2013) var eldflaugaverkfæðingur og er þekktust fyrir það að hafa fundið upp búnað sem hjálpar gervitunglum að halda sig á réttri braut. Búnaðurinn, sem á ensku heitir Electrothermal Hydrazine Thruster (EHT) er staðalbúnaður í hverri einustu geimflaug í dag. Hún var ein af fyrstu konunum á sínum starfsvettvangi og brautryðjandi í heimi sem var annars stútfullur af körlum á þessum tíma. Yvonne hélt áfram að vinna að hinum ýmsu verkefnum tengdum geiminum, m.a. að könnunarfari til Mars og fyrsta veðurtunglinu. Árið 2011 fékk hún sérstaka viðurkenningu frá Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Camille W. Alleyne (1966 -) er ótrúlega klár kona. Hún er með svo margar háskólagráður að það tæki hálfan daginn að telja þær allar upp. Hún hefur komið að þróun, rannsóknum og hönnun hinna ýmsu tækja og tóla sem tengjast geimferðum í meira en áratug. Þessa dagana fer hún fyrir hópi teymis sem sér um öll undirkerfi í hluta nýs geimfars sem á að koma fólki aftur til tunglsins í náinni framtíð. Hlutinn sem Camille sér um í geimfarinu hýbílum áhafnarinnar og því er ábyrgðin mikil. Hún er sömuleiðis flugmaður og stofnandi og formaður The Brightest Stars Foundation, sem hvetur ungar stelpur til að trúa á sjálfar sig og láta drauma sína rætast.

Heimildir: http://womenrockscience.tumblr.com/ http://www.space.com/20467-yvonne-brill-rocket-scientist-obituary.html http://brighteststarsfoundation.org/who-we-are/%E2%80%A2camille-wardrop-alleyne-%E2%80%93-founder-and-president/ http://www.vintagewings.ca/VintageNews/Stories/tabid/116/articleType/ArticleView/articleId/82/language/en-CA/The-Queen-of-the-Hurricanes.aspx Ljósmynd tekin af: http://womenrockscience.tumblr.com/

Myndvinnsla og texti: Ævar Þór Benediktsson. Sérstakar þakkir: Katrín Lilja Sigurðardóttir og Sævar Helgi Bragason


Nýlegt
bottom of page